Viðey
Sögueyjan
Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa.
Viðey er einn helsti sögustaður landsins. Þar má finna fornleifar allt frá landnámi og þar eru tvö af elstu húsum landsins, Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa.
Um staðinn
Í Viðey eru einnig staðsett ein merkustu útilistaverk borgarinnar, Friðarsúla Yoko Ono og umhverfislistaverkið Áfangar eftir Richard Serra. Viðey er sannkölluð náttúruperla í borgarlandinu, með djúpar sögulegar rætur og menningarlegt vægi. Þetta gerir eyjuna að einstökum og heillandi áfangastað til ánægju, útivistar og í ævintýraleit. Þar er líka hægt að komast í kyrrð frá annríki hversdagsins og sækja andlega endurnæringu.
Þú kemst til Viðeyjar með því að fara í 5-10 mínútna siglingu um sundin blá með samstarfsaðilum okkar hjá Eldingu.
Mikilvægt er að við sýnum nærgætni í umgengni við Viðey svo hægt sé að koma og njóta náttúru hennar aftur og aftur. Í Viðey er að finna kletta, skurði og tjarnir sem geta verið varhugaverð. Við bendum á að börn eru á ábyrgð foreldra eða annarra forráðamanna í eyjunni.
Hópur fólks fyrir utan Viðeyjarstofu, um 1902.
Viðey er afar gróðursæl og var öldum saman talin ein besta bújörð landsins. Þar bjuggu menntamenn og áhrifamenn í íslensku samfélagi og þar sjást enn ummerki túna og hlaðinna garða. Eyjan skiptist í tvo hluta, Heimaey og Vesturey, sem tengjast með Eiðinu. Á austurhluta Heimaeyjar er að finna rústir þorps frá tímum Milljónafélagsins þegar útgerð og mannlíf stóð þar í miklum blóma. Nú standa þar eftir aðeins tvær byggingar og rústir einar sem minna á liðna tíma. Á Heimaey standa ein elstu hús landsins, Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa. Eyjan er jafnframt útivistarsvæði í eigu Reykvíkinga og öllum er velkomið að koma og njóta kyrrðar og náttúru eyjarinnar.
Viðey er um 1,7 km2 að stærð og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli. Meðfram strönd eyjarinnar sjást stórbrotnar bergmyndanir. Fegurð stuðlabergsins í Virkishöfðanum og Eiðisbjarginu er sérstaklega mikil. Æðarfugl er algengasti fuglinn í Viðey og verpir hann beggja vegna við Þórsnesið, en þar er eyjan friðuð yfir varptímann, á tímabilinu 1. maí – 1. júlí. Aðrar algengar fuglategundir í eyjunni eru fýll, grágæs, hrossagaukur, sendlingur og tjaldur en alls verpa þar um 30 fuglategundir.
Ferjuáætlun
Vetur (1. sept. – 14. maí): Eingöngu siglt um helgar. Sumar (15. maí – 31. ágúst).
Nánari upplýsingar hjá Eldingu
List í Viðey
Áletraðir steinar
Á Vestureyjunni má finna þrjá jarðfasta steina með áletrunum. Ekki er i öllum tilvikum vitað hverjir voru þar að verki eða hver tilgangurinn var.
Áfangar
Í tengslum við Listahátíð 1990 var listaverkið Áfangar eftir bandaríska myndhöggvarann Richard Serra (f. 1939) reist á Vestureyjunni en eigandi þess er Listasafn Reykjavíkur. Serra er einn áhrifamesti myndhöggvari samtímans og er verkið gjöf hans til íslensku þjóðarinnar. Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vesturey og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi. Listaverkið er úr stuðlabergi og vísar þannig til jarðsögu eyjarinnar og undirstrikar um leið órjúfanleg tengsl þess við umhverfi sitt.
Verkið samanstendur af níu súlnapörum úr stuðlabergi sem ramma inn nærliggjandi kennileiti eða áfangastaði. Súlnapörin eru þannig uppsett að önnur súlan stendur í níu metra hæð yfir sjó en hin stendur tíu metrum yfir sjávarmáli. Súlurnar eru þó jafnar að ofan því sú sem lægra stendur er fjórir metrar á hæð en hin hærri aðeins þrír metrar og jöfn hæð þeirra því þrettán metrar yfir sjávarmáli. Bilið á milli súlnanna ræðst svo af halla landsins sem þær standa á. Öll stuðlabergspörin eru sýnileg af hæsta punkti eyjunnar, sem er átján metrar yfir sjávarmáli.Listaverkið Áfangar ber mörg einkenni minimalískrar myndlistar; margfalda endurtekningu sömu formanna, öxullausa samhverfu symmetríu, stærðfræðilega reglu og beinskeytt áhrif á nánasta umhverfi. Öll þessi atriði er gott að hafa í huga þegar verkið er skoðað, en þó eru þau engin forsenda þess að umhverfis og listar verði notið á Vesturey. Stuðlabergspörin eru heillandi áningarstaðir þar sem list og náttúra renna saman í eina heild.
Friðarsúlan í Viðey
Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Verkið er í formi „óskabrunns“, en upp úr honum stígur há og mikil ljóssúla. Orðin „Hugsa sér frið“ eru grafin í brunninn á 24 tungumálum. Ljóssúlan er samansett úr mismunandi geislum sem sameinast í einu sterku ljósi. Sex ljósgeislanna fara lárétt um göng á palli í kring um brunninn og er endurkastað upp á við með speglum. Þéttleiki ljóssins, sem stafar frá súlunni, er háður sífelldum breytingum á ögnum í andrúmsloftinu sem hegða sér í takt þá við margbreytilega veðráttu sem einkennir Ísland.
„Ég vona að friðarsúlan muni lýsa upp heitar óskir um heimsfrið hvaðanæva að úr veröldinni og veita hvatningu, innblástur og samstöðu í heimi þar sem nú ríkir ótti og ringulreið. Sameinumst um að gera friðsæla veröld að veruleika.“ – Yoko Ono
„Hugsa sér allt fólkið lifa lífinu í friði.“
John Lennon
Frá því á síðustu öld hefur Yoko Ono safnað óskum fólks hvaðanæva að úr heiminum, sem hluta af venslaverki hennar Óskatré, sem hefur verið sýnt í söfnum og menningarmiðstöðvum víða um heim. Þessar óskir eru geymdar í tímahylkjum við friðarsúlu hennar í Viðey.
Yoko Ono býður þér að bæta við óskum á www.imaginepeace.com eða með því að senda póst til:
IMAGINE PEACE TOWER PO Box 1009 121 Reykjavík Ísland
Maríulíkneski
Árið 2000 var reist Maríulíkneski á Kvennagönguhól til minningar um 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi, en María mey var verndardýrlingur Viðeyjarklausturs.